Ástralskir vínframleiðendur mega ekki lengur
nota hefðbundin evrópsk heiti eins og kampavín, púrtvín eða sérrí til að nefna vörur sínar, skv. samkomulagi við Evrópusambandið, sem tekur gildi á morgun. Ástralir fá 1 árs aðlögunartíma til að þurrka
út slík nöfn samkvæmt samkomulaginu, sem skrifað var undir fyrir 2 árum til
verndar landfræðilegum vörumerkjum ESB.
Dacian Ciolos, sem fer með landbúnaðarmál í framkvæmdastjórn ESB, sagði í dag að samkomulagið kæmi sér vel fyrir bæði evrópska og ástralska vínframleiðendur. „Það mikilvægasta er að ástralskir framleiðendur hafa skuldbundið sig til að hætta notkun landfræðilegra skilgreininga sem eru hefðbundin á sín vín. Þetta er afar mikilvægt fyrir evrópska framleiðendur," sagði Ciolos.
Evrópskur landbúnaður reynir hvað hann getur að vernda sígildar vörur sem kenndar eru við upprunastað sinn, s.s. parmesanost frá Parma á Ítalíu. Kampavín er framleitt í héraðinu Champagne í Frakklandi, portvín í Portúgal og sérri í héraðinu Jerez á Spáni.