Sú uppljóstrun Tonys Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, að hann hafi leitað í áfengi til að róa taugarnar undir lok valdaferils síns hefur vakið mikla athygli og umræður um hvernig fólk undir álagi hallar sér að flöskunni til að gleyma amstri dagsins.
Eins og margir sem venjast víni var Blair góður í að fela neysluna og má nefna að spunameistari hans, Alistair Campbell, kom af fjöllum er hann heyrði fyrst af drykkjuskapnum.
Breska útvarpið, BBC, fjallar um málið en á vef þess segir að 11% breskra karlmanna leiti í áfangi til að slá á streitu.
Kemur þar einnig fram að Blair hafi drukkið sem nemur 6 einingum af áfengi dag hvern en samkvæmt breskri skilgreiningu eru tveir hálfs lítra bjórar með 5% áfengismagn skilgreindir sem 5 einingar. Fer því nærri að Blair hafi drukkið fjóra litla bjóra, eða 330 ml flöskur, á hverjum degi á umræddu tímabili.
Er magnið ígildi þess að drekka 250 ml af sérri á dag
Vitnað er í Dr John Foster, fræðimann við Greenwich-háskóla í Bretlandi, sem telur drykkju Blairs dæmigerða fyrir millistéttarfólk sem reyni að létt af sér oki dagsins.
Segir Foster þennan ávana fara vaxandi í Bretlandi og að neyslan í heimahúsum aukist hraðar en á börum og öðrum stöðum með vínveitingaleyfi.
Þá er vitnað til nýlegrar rannsóknar breska heilbrigðiseftirlitsins um að 9% Breta drekki áfengi daglega og eru einstaklingar 45 ára og eldri líklegastir til að fá sér í glas alla daga vikunnar.