Hagfræðingarnir Simon Johnson og Peter Boone vara við því að írska ríkið muni ekki ráða við skuldafjallið sem hlóðst upp í fasteignabólunni fyrir fjármálakreppuna 2008. Segja þeir írska banka þurfa að standa skil á 26 milljarða evra afborgunum í september, jafnvirði fimmtungs þjóðartekna.
Johnson og Boone gera grein fyrir þessari skoðun sinni í grein á vef New York Times en þeir byggja tölurnar yfir afborganirnar í þessum mánuði á greiningu Royal Bank of Scotland.
Boone er fræðimaður við London School of Economics en Boone fyrrverandi yfirhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þeir benda á að þriðji stærsti banki Írlands muni þurfa á 25 milljarða evra viðbótarfjárveitingu frá írska ríkinu á næstunni, upphæð sem nemi um fjórðungi landsframleiðslunnar.
Þeir benda jafnframt á að halli af fjárlögum stefni í að verða um 15% í ár og að ríkisvaldið geri ráð fyrir að komast í gegnum skuldafjallið með því að veðja á að viðsnúningur fari í gang með 4% hagvexti árið 2012. Útlán sem ekki kunna að endurheimtast nemi 100% af landsframleiðslu.
Fjórðungs líkur á greiðslufalli
Markaðir meti stöðuna nú svo að fjórðungs líkur séu á greiðslufalli írska ríkisins á næstu fimm árum.
Atvinnuleysið sé komið í 13,8% miðað við 13,1% atvinnuleysi í upphafi ársins.
Framtíðarsýn Boone og Johnson er dökk.
Árið 2015 muni skuldir ríkisins verða um 200.000 evrur, ríflega 30 milljónir króna, á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Aðeins 73.000 börn fæðist í landinu ár hvert og með sama áframhaldi sé ljóst að þeirri bíði afborganir af lánum næstu áratugi.
Framundan sé tímabil meiri niðurskurðar og vara tvímenningarnir við því að umfang velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntunar, muni minnka stórlega.
Írar fluttust sem kunnugt er búferlum í hundruðþúsundatali til Bandaríkjanna á 19. öld og vara hagfræðingarnir að lokum við því að sagan geti endurtekið sig.