Mega ekki þiggja gjafir

Jonas Gahr Störe var harðlega gagnrýndur fyrir að þiggja og …
Jonas Gahr Störe var harðlega gagnrýndur fyrir að þiggja og halda eftir gólfmottum sem hann fékk frá Hamid Karzai. Reuters

Ríkisstjórn Noregs hefur boðað hertar siðareglur og bannað norskum stjórnmálamönnum að þiggja og eiga gjafir frá erlendum þjóðhöfðingjum.

Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, var harðlega gagnrýndur í norskum fjölmiðlum þegar hann hélt eftir fimm afgönskum gólfmottum sem Hamid Karzai, forseti Afganistans, gaf honum og öðrum norskum embættismönnum er þeir heimsóttu Afganistan.

Störe greiddi skatt af mottunum, sem eru metnar á rúmar 300.000 krónur. Hann sagðist ekki hafa brotið neinar siðferðisreglur með athæfi sínu og furðaði sig á því að einhverjir skyldu halda öðru fram.

Norskir fjölmiðlar gagnrýndu ráðherrann og sögðu að stjórnmálamenn eigi ekki að fá að eiga og nýta í eigin þágu gjafir sem þeir fá í gegnum sín störf. Sömu reglur eigi að gilda um þá og aðra opinbera embættismenn.

Skv. nýju reglunum mega ráðherrar ekki þiggja gjafir í störfum sínum. Undantekning er gerð ef það þykir móðga þann sem kemur færandi hendi, en þá mega ráðherrar þiggja gjöfina. Þeir verða aftur á móti að afhenda hana viðkomandi ráðuneyti.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir að ráðherrarnir hafi samþykkt þessar breytingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert