Veggjalúsafaraldur í aðsigi?

Veggjalýs geta skilið eftir sig ljót merki á mönnum.
Veggjalýs geta skilið eftir sig ljót merki á mönnum.

Veggjalús er vaxandi vandamál í mörgum löndum, segir í frétt BBC. ,,Niðurstöður hnattrænnar könnunar benda til þess að faraldur veggjalúsa sé að skella á, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um allan heim," segir Missy Henriksen, aðstoðarforstjóri smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna.

Veggjalúsin er örsmá vexti, hún tekur sér bólfestu í rúmdýnum, koddum og víðar. Hún getur valdið kvalafullum kláða og ofnæmi. Vestanhafs er hún einkum skæð í New York, þar hefur þurft að loka skrifstofuhúsum, kvikmyndahúsum og verslunum vegna faraldursins, þ. á m. frægri undirfataverslun sem er hluti Victoria's Secret-keðjunnar.

Þótt veggjalúsin geti hvorki flogið né stokkið er hún ótrúlega lagin við að finna sér felustaði í rúmfatnaði og húsgögnum en fara svo á kreik þegar dimmt er orðið.

Ekki er vitað til þess að kvikindin beri neina sjúkdóma í menn þegar þau bíta til að ná sér í blóð að drekka, helstu vandkvæðin eru að lýsnar geta verið svo aðgangsharðar að fólk nái ekki að sofna. Stofnun hreinlætis- og hitabeltissjúkdóma í London sagði í fyrra að kvörtunum vegna veggjalúsa í borginni hefði fjölgað árlega um 28,5% árin 2000-2006. Og kvörtunum hefur þegar fjölgað um 24% það sem af er þessu ári.

Á fjórða áratug síðustu aldar voru heil hverfi í London þar sem öll hús voru þjökuð af veggjalús en síðan tókst að draga mjög úr vandanum í nokkra áratugi. Nú er talið að lúsin sé búin að mynda mótstöðu gegn algengu skordýraeitri.

 Sum bresk hótel hafa tekið í sína þjónustu hunda sem þjálfaðir hafa verið í að þefa uppi veggjalýs. Það tekur þá aðeins nokkrar mínútur að leita af sér allan grun í herbergi en vegna smæðar kvikindanna getur maður verið hálftíma lengur að ljúka verkinu.   Hundurinn étur ekki lýsnar, hann lætur duga að benda með loppunni á staðinn þar sem hann finnur þefinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert