Mál írönsku konunnar, Sakineh Mohammadi-Ashtiani, tekur á sig ýmsar myndir. Líkt og fram hefur komið hefur hún verið dæmd til að vera grýtt til bana fyrir að hafa haldið fram hjá eiginmanni sínum, Nú hefur hún verið dæmd til að þola 99 svipuhögg fyrir að mynd hafi birst af henni á slæðunnar.
Árið 2006 þurfti Mohammadi Ashtiani að þola 99 svipuhögg fyrir að eiga í ólöglegu ástarsambandi við tvo menn eftir að hún varð ekkja.
Haustið sama ár var mál hennar tekið upp að nýju og hún sökuð um að hafa haldið fram hjá eiginmanni sínum meðan hann lifði. Fyrir hið meinta hórdómsbrot var hún dæmd til að verða grýtt til dauða. Hún hefur setið í fangelsi síðan og beðið dauða síns en athygli umheimsins var ekki vakin fyrr en í sumar fyrir þrotlausa baráttu tveggja barna hennar sem segja að móðir þeirra sé höfð fyrir rangri sök og vilja lífi hennar þyrmt. Sonur hennar Sajad, sem var á sínum tíma, þegar hann var 17 ára gamall, þvingaður til að horfa á Ashtiani hýdda, segir að tilhugsunin um móður þeirra grafna í jörðu og grýtta hafi verið honum og systur hans Farideh martraðarefni árum saman.
Málið hefur orðið hið óþægilegasta fyrir írönsk yfirvöld eftir að börnum Ashtiani tókst, með aðstoð íranska lögfræðingsins Mohammed Mostafaei og þýska mannréttindafrömuðarins Mina Ahadi, að ná athygli vestrænna fjölmiðla, en breska blaðið Guardian sagði fyrst frá því.
Síðan hafa borist misvísandi skilaboð frá yfirvöldum í Íran. Fyrst var tilkynnt að dauðarefsingunni hefði verið breytt úr grýtingu í hengingu en síðar héldu embættismenn í Íran því fram að Ashtiani væri einnig sek um aðild að morði mannsins síns og skyldi eftir sem áður verða grýtt. Fjölmiðlum í Íran er bannað að fjalla um málið og lögfræðingur Ashtiani, Mohammed Mostafei er nú eftirlýstur og flúinn frá heimalandinu. Hann hefur óskað eftir pólitísku hæli í Noregi.
Sonur hennar Sajjad segir í viðtali sem birtist á vef franska tímaritsins La Regle du Jeu að hann hafi frétt af hengingunni frá fanga sem nýverið losnaði úr haldi.
Á myndin að hafa birst í breska dagblaðinu Times of London þann 28. ágúst. Undir myndinni stóð að hún væri af Mohammadi-Ashtiani. Það var hins vegar leiðrétt 3. september. Sajjad segir ljóst að myndin sé ekki af móður hans.