„Það verður allt brjálað eftir smá stund“

Kristín Harpa Katrínardóttir.
Kristín Harpa Katrínardóttir.

Fellibylurinn Earl er genginn á land í Nova Scotia í Kanada.  „Það er aðeins byrjað að hvessa en núna er í raun lognið á undan storminum. Það verður allt brjálað eftir smá stund,“ segir Kristín Harpa Katrínardóttir, nemi í afbrotafræði við St. Mary's University í Halifax, Nova Scotia.

Kristín Harpa er stödd í miðstöð fyrir erlenda stúdenta en hópurinn er að reyna að færa sig frá skólasvæðinu yfir í öruggara húsnæði. „Við sem búum ekki á skólasvæðinu erum í smá veseni því við getum eiginlega ekki farið neitt. Brýrnar eru lokaðar þannig að ég kemst ekki úr miðborginni. Við höfum því eiginlega engan stað til að fara á. Þar sem ég bý er allt orðið rafmagnslaust. Það er búið að loka næstum öllum og aflýsa öllu sem við ætluðum að gera í dag. Við erum að horfa á greinar fjúka framhjá gluggunum sem eru jafnstórar trjánum heima, en hér eru rosalega há og mikil tré.“

Kristín segir fólk óttast mest að verða rafmagnslaust í langan tíma. „Fólk er minna að hugsa um hvort hlutir skemmist eða fjúki. Ég er nýkomin hingað og er ekki komin með nein húsgögn. Það fyrsta sem nágrannarnir mínir gerðu var að lána mér viftu því það er búið að vera 30-40 stiga hiti hérna og loftið hefur ekki hreyfst því fellibylurinn var að koma. Síðan minntu þeir mig á að hafa baðkarið fullt af vatni í gærkvöldi fyrir storminn, til að geta sturtað niður, vera með mat tilbúinn fyrir næstu þrjá daga því ef það verður lengi rafmagnslaust get ég hvergi keypt mér mat og get ekki eldað neitt, og vera með vasaljós við höndina. Ég fór að kaupa vatn í gær og það var nánast allt uppselt, ég gat bara fengið þrjár litlar flöskur.“

Eins og fyrr segir er Kristín stödd í miðstöð fyrir erlenda stúdenta. „Við sem erum hérna og erum frá öllum heimshornum, við vitum ekki alveg hvernig við eigum að haga okkur. Ég er ekki beint hrædd en þetta er skrýtið.“

Kristín segir gert ráð fyrir að stormurinn gangi yfir í kvöld. „Svo verður tekist á við afleiðingarnar á næstu 2-3 dögum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert