Hvalkjöt er á boðstólum í 5.355 af 29.600 grunn- og menntaskólum Japans, samkvæmt nýrri skoðanakönnun þar í landi. Skólarnir buðu upp á hvalkjöt einu sinni eða oftar í hádeginu á síðasta skólaári sem lauk í mars.
Hvalkjöt var á sjöunda og áttunda áratugnum algeng fæða í skólum í Japan en á þeim tíma var ársneysla Japana 220 þúsund tonn af hvalkjöti.
Hins vega dró mjög úr vinsældum þess og á síðasta áratug var ársneysla Japana um eitt þúsund tonn á sama tíma og Alþjóðlega hvalveiðiráðið bannaði hvalveiðar í atvinnuskyni. En svo virðist sem hvalkjöt njóti aukinna vinsælda á ný, samkvæmt frétt Kyodo fréttastofunnar.