Lítill kirkjusöfnuður í Flórída í Bandaríkjunum ætlar ekki að hætta við brennu á Kóraninum á laugardag, 11. september, þrátt fyrir víðtæk mótmæli, meðal annars frá öðrum söfnuðum og trúarhópum. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt bókabrennuna er utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, en hún segir áform kirkjunnar ruddaleg og smánarleg.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, fordæmdi í gær áform kirkjusafnaðarins á laugardaginn kemur þegar níu ár verða liðin frá hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001.
Fogh Rasmussen sagði að slík bókabrenna samræmdist ekki þeim „gildum“ sem NATO vildi verja og yki hættuna á árásum á hermenn bandalagsins.
Hershöfðinginn David Petraeus, æðsti yfirmaður Bandaríkjahers í Afganistan, tók í sama streng. Hann sagði að líf bandarískra hermanna gæti verið í hættu ef eintök af Kóraninum yrðu brennd á báli í Bandaríkjunum. Söfnuðurinn Dove World Outreach Centre í Gainesville í Flórída segist ætla að brenna bækurnar til að mótmæla „hinu illa íslam“.Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir hugmyndina heimskulega og um leið hættulega.
En leiðtogi safnaðarins Dove World Outreach Centre í Gainesville í Flórída, Terry Jones, segir aftur á móti að senda verði skýr skilaboð til hins illa íslam.
Á vef BBC kemur fram að þrátt fyrir að söfnuðirinn sé fámennur þá komi hugmyndin ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Íslam sé orðið „heitt" umræðuefni í Bandaríkjunum eftir að byrjað var að ræða um byggingu mosku á neðri hluta Manhattan eyju í New York, skammt frá þeim stað sem tvíburaturnarnir stóðu. Telja margir Bandaríkjamenn að áhrif íslam séu orðin of mikil í bandarísku þjóðfélagi.