Presturinn á Flórída sem vakið hefur heimsathygli fyrir þá fyrirætlun sína að efna til bókabrennu við söfnuð sinn 11. september og leggja þá Kóraninn, helgirit múslíma, á bálið hyggst ekki hvika frá ætlun sinni, þrátt fyrir mikinn alþjóðlegan þrýsting um að falla frá henni.
Má þar nefna að talsmenn Bandaríkjahers hafa lagst gegn hugmyndinni og sagt hana stefna lífi bandarískra hermanna í Afganistan í voða.
Þá gagnrýndi Federico Lombardi, talsmaður Vatíkansins hugmyndina harðlega í dag, og sagði slíka athöfn mundu verða vatn á myllu öfgamanna.
En Kóraninn er sem kunnugt er helgur texti í hugum múslíma.
Sagður féfletta söfnuðinn
Fjallað er um prestinn, Terry Jones, á vef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar segir að grunur leiki á að hann hafi notað krafta safnaðarmeðlima sinna í þágu eigin atvinnurekstrar.
Jones rekur þannig verslun með antíkhúsgögn og notuð húsgögn, ásamt eiginkonu sinni Sylvíu, og segir blaðið að á meðan hjónin búi til skiptis í glæsihýsi í Louisiana og sumaríbúð á Tampa á Flórdía þurfi safnaðarmeðlimir að gera sér að góðu að búa í ódýru leiguhúsnæði í eigu prestsins.