Norskur ráðherra sakaður um spillingu

Liv Signe Navarsete.
Liv Signe Navarsete.

Rød Ungdom, ungmennahreyfing Rauða flokksins, sem er yst á vinstri væng norskra stjórnmála, hefur kært Liv Signe Navarsete, ráðherra sveitarstjórnamála í Noregi, til efnahagsbrotadeildar norsku lögreglunnar fyrir spillingu.

Fram hefur komið í norskum fjölmiðlum að Naversate hafi árið 2006 þegið dýra gjöf frá skipasmíðastöðinni Aker Yards, sem þá var í eigu Kjell Inge Røkke.

Navarsete, sem einnig leiðtogi Miðflokksins í Noregi, hefur viðurkennt að hafa tekið við armbandi, sem metið er á 26 þúsund norskar krónur, jafnvirði nærri hálfrar milljónar íslenskra króna. Þegar þetta gerðist var Navarsete samgönguráðherra Noregs. Hún segist hafa greitt skatta af armbandinu.

Rød Ungdom segir að afar mikilvægt sé að lögregla rannsaki málið. Komi í ljós að Navarsete hafi brotið lög eigi hún að fá sömu refsingu og óbreyttir borgarar.

Norska ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku, að settar yrðu strangar siðareglur fyrir ráðherra, sem meðal annars kveði á um að ráðherrar megi ekki halda gjöfum sem þeir fá í tengslum við embætti sín.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, ákvað í kjölfarið að skila fimm afgönskum teppum, sem Hamid Karzai, forseti Afganistans, gaf honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert