Útlitið er dökkt hjá Obama

Útlit er fyrir að demókratar tapi mörgum þingsætum í þingkosningunum …
Útlit er fyrir að demókratar tapi mörgum þingsætum í þingkosningunum í haust. Bendir allt til að hveitibrauðsdagar Obama séu liðnir. Reuters

Spurningin er ekki hvort demókratar bíða ósigur í þingkosningunum í haust heldur hvort að þeir bíði mikið afhroð eða ekki. Svo hefst grein blaðakonunnar Karen Tumulty í Washington Post um stemninguna hjá demókrötum, innan við tveimur árum eftir sögulegan sigur Barack Obama í forsetakosningunum 2008.

Þegar Obama bar sigurorð af John McCain lagði hann þunga áherslu á að efnahagsstefna repúblikana hefði beðið skipbrot.

Demókrötum undir hans stjórn hefur hins vegar ekki tekist að rétta við efnahag landsins og nægir að nefna að langtímaatvinnuleysi er nú í sögulegum hæðum og atvinnuleysi að meðaltali rétt undir 10%. Þá hafa kostnaðarsamar björgunaraðgerðir til handa fjármálafyrirtækjum sem tóku mikla áhættu í aðdraganda fjármálahrunsins mælst misjafnlega fyrir.

Um 80 þingsæti í hættu

Að sögn Tumulty eiga repúblikanar góða möguleika á að ná stjórn í fulltrúadeildinni. Um 80 þingsæti í fulltrúadeildinni séu í hættu og þar af aðeins innan við 12 hjá repúblikönum.

Þá telji stjórnmálaskýrendur repúblikana eiga möguleika á að vinna 10 sæti í öldungadeildinni og þar með endurheimta meirihluta sinn í þingdeildinni.

Bætir hún því svo við að leita þurfi aftur til ársins 1930 til að finna dæmi um meirihlutaskipti í fulltrúadeildinni án þess að meirihlutinn í öldungadeildinni hafi breyst.

Samkvæmt þessu er Obama því í þröngri stöðu og segir Tumulty að jafnvel þótt demókrötum takist að stöðva skriðuna í fylgisaukningu repúblikana kunni sú staða að koma upp að repúblikanar nái nægjanlegum þingstyrk til að tefja fyrir málum forsetans í þinginu.

Verði það raunin gæti Obama beðið erfiðar forsetakosningar haustið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert