AGS samþykkir næsta lán til Grikkja

Verkalýðsfélög mótmæla niðurskurði grískra yfirvalda í júní.
Verkalýðsfélög mótmæla niðurskurði grískra yfirvalda í júní. JOHN KOLESIDIS

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur formlega samþykkt aðra afgreiðslu lánapakka til Grikklands. Alls fær ríkissjóður 9 milljarða evra, 2,5 milljarða frá AGS og afganginn frá Evrópusambandinu. Nú þegar hafa Grikkir þegið 20 milljarða evra en heildarlánapakkinn hljóðar upp á 110 milljarða sem samþykkt var fyrr á þessu ári að veita landinu vegna gríðarlegra efnahagsörðugleika.

Samkvæmt nýjum tölum í vikunni varð 1,8% samdráttur á Grikklandi á öðrum ársfjórðungi. Það er meira en spáð hafði verið og meira en á fyrsta ársfjórðungi þegar samdrátturinn var 0,8%. Samkvæmt grísku hagstofunni dróst einkaneysla saman um 4,2% miðað við sama tímabil í fyrra, en jókst þó um 1,5% frá fyrst ársfjórðungi.

Fulltrúar Evrópusambandsins og AGS munu funda með grískum yfirvöldum í Aþenu í næstu viku um frekar niðurskurðaraðgerðir. Almenningur í Grikklandi hefur nokkrum sinnum blásið til öflugra mótmæla vegna niðurskurðar yfirvalda það sem af er ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert