Hundruð barnaníða tilkynnt í Belgíu

Reuters

Rannsóknarnefnd sem er að skoða málefni kaþólsku kirkjunnar í Belgíu segir að fyrstu sex mánuði ársins hafi henni borist 475 tilkynningar um meint barnaníð innan kirkjunnar. Flest þeirra áttu sér stað á tímabilinu 1950-1990. Þrettán þolendur hafa framið sjálfsvíg.

Flestir hinna brotlegu eru prestar en einnig kennarar í kaþólskum skólum og aðrir fullorðnir starfsmenn kirkjunnar sem unnu með ungmennum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er sérstaklega fjallað um hve margir þeirra sem urðu fyrir ofbeldi í æsku af hálfu starfsmanna kaþólsku kirkjunnar sáu ekki aðra leið en að taka eigið líf. Sex til viðbótar þeim þrettán sem frömdu sjálfsvíg reyndu að taka eigið líf.

Í skýrslunni sem er 200 blaðsíður að lengd er að finna vitnisburð 124 ónafngreindra einstaklinga sem lifðu af barnaníðið. Í flestum tilvikum hófst ofbeldið gagnvart börnunum þegar þau voru tólf ára gömul en það yngsta var tveggja ára gamalt, fimm voru fjögurra ára gömul, átta fimm ára og tíu voru sjö ára er ofbeldið gagnvart þeim hófst. Tveir þriðju fórnarlambanna voru drengir.

Sálfræðingurinn Peter Adriaenssens, sem hefur sérhæft sig í að aðstoða þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku, stýrði nefndinni.

Meðal annars þurfti biskupinn í Bruges,  Roger Vangheluwe, að segja af sér í apríl vegna þess sem fram kom við vitnaleiðslur rannsóknarnefndarinnar. Hann viðurkenndi að hafa beitt frænda sinn kynferðislegu ofbeldi frá árinu 1973 allt til ársins 1986.

Meðal annars er haft eftir konu í skýrslunni sem leitaði til biskupsins eftir að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu prests er hún var sautján ára að aldri, að hann hafi svarað henni því að hún hafi átt að virða prestinn að vettugi og þá fengi hún frið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert