Beiðnum um nauðungarsölu fasteigna hefur fjölgað mjög í Noregi og þær hafa ekki verið fleiri frá árinu 1990, að því er fram kemur á fréttavef Dagsavisen, sem segir þetta benda til þess að skuldavandi norskra heimila hafi ekki verið meiri í 20 ár.
Vefurinn segir að á tveimur árum hafi beiðnum um nauðungarsölu fjölgað um 24%. Á fyrri helmingi þessa árs fengu eigendur alls 9.447 fasteigna tilkynningu um að eignir þeirra yrðu boðnar upp vegna vangoldinna skulda.
Dagsavisen tekur þó fram að mörgum takist að afstýra nauðungarsölu á síðustu stundu með einhverjum hætti. Ekki liggi fyrir upplýsingar um fjölda nauðungaruppboða í Noregi en tölur frá Ósló bendi til þess að þeim hafi fjölgað þar. Fyrstu sex mánuði þessa árs voru 130 fasteignir seldar á nauðungaruppboðum í höfuðborginni, en 79 á sama tímabili árið áður.