Karlmaður er í haldi dönsku lögreglunnar eftir misheppnaða tilraun til að sprengja sjálfa sig í loft upp í miðborg Kaupmannahafnar. Minniháttar sprenging varð á hóteli við Ísraelstorg og var maðurinn handtekinn í kjölfarið, særður á handleggjum og í andliti.
Stóru svæði umhverfis Nørreport hefur í kjölfarið verið lokað af lögreglu. Sprengjusérfræðingar danska hersins og mikill fjöldi lögreglumanna eru á staðnum. Efnafræðingar voru einnig kallaðir til aðstoðar að hótelinu að sögn Berlingske Tidende.
Samkvæmt upplýsingum danskra fjölmiðla er talið að árásarmaðurinn sé frá Lúxemborg og fæddur árið 1983, ef marka má upplýsingar sem hann veitti þegar hann skráði sig inn á hótelið. Sjónvarvottar segja, að hann hafi borið svart, þykkt belti eða tösku um sig miðjan.
Hotel Jørgensen þar sem sprengingin varð hefur verið rýmt og flutti rúta alla gesti þess á brott á meðan gengið er úr skugga um að ekki leynist frekara sprengiefni á staðnum. Árásarmaðurinn var sá eini sem slasaðist í sprengingunni að sögn lögreglu.