Biblíubrenna bönnuð í Suður-Afríku

Elsta eintak Biblíunnar sem til er má sjá á British …
Elsta eintak Biblíunnar sem til er má sjá á British Library í London. KIERAN DOHERTY

Dómstóll í Suður-Afríku setti gærkvöld lögbann á fyrirhugaða bókabrennu, en múslími nokkur ætlaði sér að brenna Biblíur og spegla þannig Kóranabrennu bandaríska prestsins Terry Jones á Flórída. Maðurinn,  Mohammed Vawda sagði við fjölmiðla í dag að hann hafi verið sótillur út í prestinn og hneykslaður á því að hann hlustaði ekki einu sinni á beiðni síns eigin forseta, Barack Obama. Hann hafi talið hefndaraðgerðir nauðsynlegar.

Terry Jones vakti heimsathygli þegar hann hótaði að brenna 200 eintök af Kóraninum í dag til að minnast 11. september og mótmæla fyrirhugaðri byggingu íslamskrar menningarmiðstöðvar í New York. Í gærkvöldi var því lýst yfir eftir misvísandi fréttir að hætt hefði verið við brennuna fyrir fullt og allt.

Það voru íslömsk fræðimannasamtök í Suður-Afríku, Menntamenn sannleikans, sem kröfðust lögbanns á brennu Biblíunnar. Lögfræðingur samtakanna segir að meðlimir þeirra telji það móðgun við múslíma ekki síður en kristna menn að brenna Biblíuna, hún sé einnig talin heilagt rit af mörgum múslímum.

Vawda sagði sjálfur í dag að eftir að hann hefði lesið dómsskjöl þar sem vitnað var í vers úr Kóraninum um mikilvægi þess að virða heilög rit Kristinna manna og Gyðinga þá væri hann því feginn að áætlanir hans voru bannaðar. „Það segir í Kóraninum að gospelið sé hluti Kóransins svo að ef ég brenni Biblíuna, þá brenni ég í raun Kóranin líka," hefur AFP eftir Vawda. „Sem betur fer var ég stöðvaður í tæka tíð."

Niðurstaða dómsins var sú að ólöglegt væri að brenna hvers kyns trúarrit sem talin væru heilög samkvæmt ólíkum trúarbrögðum í Suður-Afríku. Lögfræðingur Menntamanna sannleikans segir að ráðlegast væri að Bandaríkin geri slíkt hið sama.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert