Um 1.000 manns tóku þátt í kröfugöngu í París í dag til að sýna í verki stuðning sinn við írönsku tveggja barna móðurina, Sakineh Mohammadi-Ashtiani, sem dæmd hefur verið til að vera grýtt til dauða. Þjóðþekktir Frakkar tóku þátt í kröfugöngunni, þeirra á meðal heimspekingurinn Bernard-Henri Levy og söngkonan Jane Birkin auk fjölda stjórnmálamanna.
Levy ávarpaði mannfjöldann og sagði meðal annars að fleiri konur í Íran ættu á hættu að vera grýttar, en Sakineh væri orðin táknræn fyrir baráttu þeirra allra. „Ef okkur tekst að bjarga þessari saklausu konu getum við lagt okkar að mörkum til að hjálpa öðrum konum sem bíða á dauðadeildum, og við hefnum þeirra sem hafa verið grýttir til dauða eða brenndir lifandi."
Írönsk yfirvöld sögðu í síðustu viku að dómnum yfir Ashtiani hefði verið frestað. Hún er dæmd fyrir framhjáhald og fyrir að eiga þátt í morði á eiginmanni sínum. Mannréttindahópar hafa gagnrýnt dóminn harðlega og æ fleiri nafntogaðir einstaklingar á Vesturlöndum leggja málstaðnum lið, þar á meðal Carla Bruny eiginkona Frakklandsforseta.