Andstaða við aðild að Evrópusambandinu fer vaxandi í Noregi samkvæmt könnun, sem stofnunin Sentios hefur gert fyrir blöðin Nationen og Klassekampen. Samkvæmt könnuninni vill fjórðungur Norðmanna að sótt verði um aðild að ESB en 64,9% eru því andvíg.
Að sögn Nationen hefur andstaða við ESB-aðild aldrei mælst jafn mikil frá því blöðin fóru að mæla afstöðu Norðmanna til Evrópusambandsins reglulega. Hefur andstæðingum aðildar fjölgað um 3 prósentur frá samskonar könnun í ágúst.
Fram kemur í frétt Nationen að mest andstaða er við ESB-aðild í aldurshópnum undir þrítugu. Þá er helmingur kjósenda Hægriflokksins, sem tóku þátt í könnuninni, andvígur aðild en stuðningsmenn þess flokks hafa löngum verið jákvæðastir í garð Evrópusambandsins.