Ofbeldisglæpum fækkar í Bandaríkjunum

Merki FBI.
Merki FBI.

Ofbeldisglæpum fækkaði í Bandaríkjunum í fyrra, þriðja árið í röð og hafa þeir ekki verið færri í tvo áratugi, samkvæmt nýrri skýrslu frá Alríkislögreglunni (FBI). Samanlögð tíðni morða og manndrápa, rána, líkamsárása og nauðgana féll um 5% árið 2009 miðað við árið á undan að sögn FBI.

Morðum og manndrápum fækkaði einna mest, eða um 7,3% á milli ára, næst á eftir ránum sem fækkaði um 8% á einu ári. Líkamsárásum fækkaði um 4,2% og nauðgunum um 2,6%. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er staðan þó engu að síður sú að 1,3 milljónir manna voru myrtar eða urðu fyrir alvarlegri líkamsárás eða nauðgun árið 2009.

Það kann að hljóma mikið en er þó hjóm eitt miðað við ástandið í Bandaríkjunum árið 1990, þegar morð og manndráp voru nær tvöfalt fleiri og fórnarlömb ofbeldisglæpa voru hálfri milljón fleiri. Stöðugt dró úr ofbeldisglæpum í Bandaríkjunum á árunum 1991 til 2004. Örlítil aukning varð þá aftur á tveggja ára tímabili, uns ofbeldisglæpum tók aftur að fækka árið 2007 og allar götur síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert