Sprengjumaður óþekktur enn

Sprengjumaðurinn á myndbandi sem Kaupmannahafnarlögreglan birti.
Sprengjumaðurinn á myndbandi sem Kaupmannahafnarlögreglan birti.

Lögreglu í Danmörku hefur ekki tekist að bera kennsl á einfættan karlmann, sem handtekinn var á föstudag, grunaður um að hafa sprengt sprengju á hóteli í Kaupmannahöfn. Segir lögregla, að maðurinn hafi meira að segja fjarlægt framleiðslunúmer af gervifæti, sem hann notar.

Svend Foldager, lögregluforingi, segir að maðurinn, sem talinn er vera á þrítugsaldri, talar frönsku og er grænmetisæta, hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að koma í veg fyrir að hægt yrði að bera kennsl á hann.

Maðurinn var handtekinn á föstudag eftir að hafa valdið lítilli sprengingu inni á baðherbergi hótels í borginni. Maðurinn særðist lítillega en engan annan sakaði. Lögreglan hefur ekki enn gert upp við sig hvort maðurinn hafi verið að undirbúa hryðjuverkaárás en lögregluvörður var settur við höfuðstöðvar blaðsins Jyllands-Posten í Árósum og við skrifstofur blaðsins í Kaupmannahöfn. 

Foldager sagði að maðurinn hefði verið með falsað belgískt nafnskírteini en hann hefði einnig notað tvö önnur fölsuð persónuskilríki.  

Lögregla birti í gærkvöldi myndskeið úr eftirlitsmyndavélum, sem sýnir manninn á ferð í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Þá hefur lögreglan einnig birt myndir af gervifætinum, sem maðurinn var með. Er fóturinn sagður framleiddur í Vestur-Evrópu og vönduð smíð og því ætti að vera hægt að finna framleiðandann.

Maðurinn var ekki með farsíma eða kreditkort á sér. Hann hefur hins vegar beðið um að fá trúarrit í fangaklefann, bæði Kóraninn og Biblíuna en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. desember. 

Myndir úr eftirlitsmyndavélum

Myndir af manninum á flótta

Gervifóturinn sem maðurinn var með.
Gervifóturinn sem maðurinn var með.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert