Olía sem nýlega fannst á sjávarbotni undan Brasilíu er hugsanlega stærsti olíufundur í heiminum í 20 ár, að sögn brasilískra yfirvalda. Olíulindirnar sem kallaðar eru Libra fundust árið 2007 skammt undan ströndum Rio de Janeiro og Sao Paulo. Talið er að þar sé að finna sem nemur 7,9 milljörðum tunna af hráolíu, að sögn Magda Chambriard forstjóra olíustofnunnar Brasilíu.
„Hvar annars staðar hefur verið útboð fyrir yfir 7 milljarða tunnur á síðustu árum? Það hefur ekki gerst síðan í Miðausturlöndum á 8. áratugnum," hefur dagblaðið Estado de Sao Paulo eftir Chambriard. Útboð olíuvinnslunnar verður að öllum líkindum á næsta ári. Olíulindirnar er að finna á miklu dýpi undir þykku lagi af salti sem sagt er að áskorun verði að vinna í gegnum.
Ef olíufundurinn reynist jafnstórt og fullyrt er gæti Brasilía orðið eitt af stærstu olíuútflutningsríkjum heims.