Frakkar láta í sér heyra

Fjölmenn mótmæli voru haldin samtímis í Frakklandi og í Belgíu í dag vegna ákvarðana þarlendra yfirvalda um að hækka eftirlaunaaldurinn. Gríðarleg óánægja er með fyrirætlanirnar. Samkvæmt belgísku lögreglunni komu um 3.000 manns saman í Brussel til að mótmæla og krefjast þess að lágmarksframfærsla verði hækkuð.

Í Belgíu ætla yfirvöld einnig að einkavæða lífeyrissjóðina. Verkalýðsleiðtoginn Claude Rolin ávarpaði mótmælendur og sagði meðal annars að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar væru þeir látnir gjalda sem enga ábyrgð bæru á efnahagsástandinu. Launafólk, bótaþegar og ellilífeyrisþegar væru látin bera þyngstu byrðar kreppunnar.

Í Frakklandi kom til átaka við lögreglu þegar mótmælt var ákvörðun um að hækka eftirlaunaaldurinn úr 60 ára í 62 ár. Mótmæli hafa verið tíð í Frakklandi síðan kreppan skall á og meðal annars voru umfangsmikil mótmæli og verkföll fyrr í þessum mánuði. Franskir mótmælendur sem rætt var við í dag sögðust ævareiðir og hótuðu því að gripið yrði til frekari aðgerða ef ekki verði á þau hlustað.

Neðri deild franska þingsins samþykkti frumvarpið í dag eftir heitar umræður þingmanna, en frumvarpið á enn eftir að fara í fyrir öldungadeildina. Búist er við umfangsmiklum verkföllum og kröfugöngum í næstu viku og vonast verkalýðsfélög sem skipuleggja mótmælin til þess að milljónir manna muni taka þátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert