Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, lagði til í dag, að framkvæmdastjórnarmaður Evrópusambandsins, sem gagnrýndi frönsk stjórnvöld fyrir stefnu þeirra í málefnum sígauna, taki við sígaununum í heimalandi sínu, Lúxemborg. Stjórnvöld í Lúxemborg segja þessi ummæli forsetans sprottin af illgirni.
Franskir þingmenn, sem áttu hádegisverðarfund með Sarkozy í dag, höfðu þetta eftir forsetanum.
„Hann sagðist aðeins vera að beita reglugerðum Evrópusambandsins og frönskum lögum og Frakkland myndi ekki hvika í þessu máli. En ef Lúxemborg vilji taka við sígaununum þá geri hann engar athugasemdir við það," sagði Bruno Sido, þingmaður UMP flokksins, flokks forsetans.
Viviane Reding, sem fer með dómsmál í framkvæmdastjórn ESB, sagði í gær að aðgerðir Frakka gegn sígaunum gæfu þá mynd, að verið væri að vísa fólki frá Evrópusambandslandi á þeirri forsendu einni, að það tilheyrði tilteknum minnihlutahópi.
„Ég hélt, að Evrópa myndi ekki þurfa að verða vitni að slíku aftur eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk," sagði Reding. Hún sagði, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi hugsanlega grípa til aðgerða gagnvart Frökkum.
Þessi ummæli haf vakið mikla reiði í Frakklandi. Höfðu þingmennirnir meðal annars eftir Sarkozy, að það væri hneykslanlegt hvernig evrópskir ráðamenn tjáðu sig um málið.
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók í dag upp hanskann fyrir Reding og sagði, að fara yrði eftir lögum. Hann sagði, að hægt hefði verið að misskilja sum ummæli, sem hafa fallið og tók fram, að Reding hefði ekki ætlað að líkja brottflutningi sígaunanna við atburði á tímum síðari heimsstyrjaldar.