Ræddu frið í Ísrael í dag

Forsætisráðherra Ísraels Benjamin Netanyahu tók í dag á móti Mahmoud Abbas forseta Palestínu í ráðherrabústað sínum til að halda áfram friðarviðræðum sem hófust í Bandaríkjunum. Leiðtogarnir gáfu ekkert uppi um hvernig viðræðurnar ganga.

Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna tók einnig þátt í viðræðunum. Umdeildar framkvæmdir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum eru meginefni fundanna. Í lok fundarins í dag, sem stóð í 2 klukkustundir, sagði George Mitchell, formaður alþjóðlegrar nefndar um málefni Mið-Austurlanda, að viðræðurnar hefðu verið „alvarlegar og innihaldsríkar.“

„Ég get alveg sagt það að leiðtogar landanna tveggja eru ekki að ýta erfiðum málefnum á undan sér til loka viðræðnanna. Þeir ráðast beint að kjarna vandans sem deilur Ísraels og Palestínu hverfast um og gerðu það einnig í kvöld.“ Á meðan friðarviðræðunum í Ísrael stóð í dag varpaði ísraelsk herflugvél sprengju á göng sem notuð eru til smygls undir landamæri Gasastrandarinnar við Egyptaland, í kjölfar árásar palestínskra uppreisnarmanna á Ísrael. 

Talskona Ísraelshers sagði að eldflaug og 8 sprengjuvörpum hefði verið skotið frá Gasasvæðinu, en Hamas hreyfingin hefur lýst andstöðu sinni við friðarviðræðurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert