Tyrkir afhuga ESB

Tyrkir horfa í auknum mæli til íslamskrar arfleiðar sinnar og …
Tyrkir horfa í auknum mæli til íslamskrar arfleiðar sinnar og stuðningur við aðild að ESB fer þverrandi. mbl.is

Almenningur í Tyrklandi virðist hafa misst áhugann á inngöngu í Evrópusambandið og horfir nú vonaraugum til bandamanna í Miðausturlöndum. Þetta er niðurstaða könnunar sem unnin var á vegum Marshall stofnunarinnar í Bandaríkjunum og birt var í morgun.

Aðeins 38% svarenda sögðust styðja inngöngu Tyrklands í ESB. Til viðmiðunar var 74% stuðningur við inngöngu landsins í ESB árið 2004.

Stuðningur við að auka tengslin við hinn múslímska heim hefur tvöfaldast frá því í fyrra. Þá var um 10% Tyrkja á þeirri skoðun en nú er stuðningurinn um 20%.

Meðal íbúa ríkja Evrópusambandsins er andstaða við inngöngu Tyrkja í ESB um 48% en um 38% íbúa eru því fylgjandi.

Tyrkir hófu viðræður við Evrópusambandið um inngöngu árið 2005. Lítið hefur þokast í þeim viðræðum en þær stranda aðallega á hægum endurbótum í Tyrklandi og deilum um skiptingu Kýpur.

Helstu andstæðingar inngöngu Tyrkja í ESB eru Frakkar og Þjóðverjar. Þessi stórveldi innan ESB segja Tyrki ekki eiga samleið með Evrópu.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa látið í ljós áhyggjur með þróun mála í Tyrklandi. Tyrkir eru eina múslimaþjóðin innan NATO og því mikilvægt að samskipti séu traust við Vesturlönd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert