Tekist hefur að bora björgunargöng niður til þrjátíu og þriggja námuverkamanna sem hafa setið fastir í námu í Chile frá 5. ágúst sl. Það munu hins vegar líða nokkrar vikur þar til mennirnir losna úr prísundinni.
Holan, sem er 630 metra djúp, er aðeins 30 cm breið. Hún þarf a.m.k. að vera 70 cm breið til að mennirnir komist út. Menn binda nú vonir við að þeir verði lausir í byrjun nóvember. Þeir festust í kopar- og gullnámunni þegar aðalgöngin í gáfu sig og hrundu.
Þegar er búið að bora þrjár litlar holur til að koma matvælum, vatni og lyfjum til mannanna.
Þrjátíu og tveir Chilemenn og einn maður frá Bólivíu eru í námunni. Aldrei hafa jafn margir, sem sitja fastir neðanjarðar, lifað jafn lengi og raun ber vitni.