Fátækt jókst í Bandaríkjunum árið 2009. Samkvæmt nýjum tölum bjuggu um 14,3 prósent Bandaríkjamanna við aðstæður undir fátæktarmörkum árið 2009. Það er aukning frá árinu á undan en 13,2 prósent Bandaríkjamanna lifðu undir fátæktarmörkum árið 2008.
Aukin fátækt er talin stafa af langvarandi samdráttarskeiði í bandarísku efnahagslífi.
39,8 milljónir Bandaríkjamanna töldust undir fátæktarmörkum árið 2008 en 43,6 milljónir árið 2009. Aldrei hafa fleiri mælst undir fátæktarmörkum síðan markvissar mælingar hófust fyrir 51 ári.
Fátækt hefur aukist mest á meðal barna og ungmenna yngri en 18 ára en um 20,7 prósent barna töldust lifa undir fátæktarmörkum árið 2009 en það eru um 15,5 milljón börn.
The Philadelphia Inquirer greindi frá þessu.