Lögreglumaður segir gögn í Treholts-málinu vera fölsuð

Arne Treholt.
Arne Treholt.

Fyrrverandi lögreglumaður segir í samtali við norska dagblaðið Aftenposten að mikilvægustu sönnunargögn saksóknarans í málinu gegn Arne Treholt, sem dæmdur var í 20 ára fangelsi fyrir njósnir fyrir Sovétríkin á níunda áratugnum, hafi verið fölsuð. Um er að ræða ljósmyndir af peningum.

Lögreglumaðurinn fyrrverandi, sem fylgdist með Treholt þar til hann var handtekinn í janúar 1984, sakar norsku leyniþjónustuna um að hafa staðið á bak við fölsuðu myndirnar.

Myndirnar voru af skjalatösku Treholts, úttroðinni af peningum, sem lögreglan staðhæfði að hefði fundist við húsleit sem gerð var heima hjá honum nokkrum mánuðum fyrir handtöku hans. Talið var óyggjandi að Treholt hefði afhent Sovétmönnum mikilvæg gögn fyrst hann hefði fengið svona mikla peninga frá þeim.

Treholt var náðaður af norsku ríkisstjórninni í júlí 1992 en hefur alla tíð barist fyrir endurupptöku málsins. Lögreglumaðurinn segist vera reiðubúinn að koma fyrir endurupptökunefnd og greina frá sinni sögu.

Lögreglumaðurinn, sem vill ekki láta nafn síns getið, segir það mikinn létti að hafa loks komið fram til að segja sannleikann. Hann segir að sl. 25 ár hafi ekki liðið sá dagur þar sem hann hafi ekki hugsað um það óréttlæti sem Treholt hafi verið beittur.

Hann svaraði því til að hann væri heigull og hefði slæma samvisku þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði ekki greint frá þessum upplýsingum fyrr.

Kveikjan hafi verið bók sem kom út fyrr í þessum mánuði þar sem sýnt sé fram á að norska leyniþjónustan hafi falsað helstu sönnunargögn í málinu.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka