„Það er ljóst, að í kvöld höfum við skrifað nýjan kafla í pólitísku söguna," sagði Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, þegar hann ávarpaði kosningavöku flokksins í kvöld.
Útlit er fyrir, að flokkurinn hafi fengið 5,8% atkvæða í þingkosningunum í Svíþjóð í dag og fái 20 þingsæti. Er það í fyrsta skipti, sem flokkurinn kemur mönnum á þing.
Flokkurinn er lengst til hægri í sænskum stjórnmálum og vill meðal annars stöðva straum innflytjenda til Svíþjóðar.
Åkesson, sem er 31 árs, sagði að flokkurinn muni axla þá ábyrgð, sem fylgi því að vera á sænska þinginu. Ljóst er hins vegar, að enginn annar flokkur vill starfa með Svíþjóðardemókrötunum vegna stefnumála flokksins.