Stjórnin með 49,1%

Fredrik Reinfeldt í kjörklefanum í dag.
Fredrik Reinfeldt í kjörklefanum í dag. Reuters

Sænska ríkisstjórnin virðist halda velli samkvæmt útgönguspá,sem sænska sjónvarpið birti þegar kjörstöðum var lokað í Svíþjóð í dag. Fær kosningabandalag mið og hægri flokkanna 49,1% atkvæða samkvæmt spánni, bandalag vinstriflokkanna 45,1% og Svíþjóðardemókratarnir fá 4,6% atkvæða.

Samkvæmt útgönguspánni fær Jafnaðarmannaflokkurinn 30% atkvæða og tapar rúmum fimm prósentum frá síðustu kosningum. Þótt flokkurinn sé enn sá stærsti í Svíþjóð hefur hann ekki notið jafn lítils fylgis frá árinu 1914.

Hægriflokkurinn, flokkur Fredriks Reinfeldts, forsætisráðherra, fær 29,1% samkvæmt könnuninni og bætir við sig 3 prósentum.  Umhverfisflokkurinn fær 9% atkvæða og eykur fylgi sitt um 3,8 prósentur samkvæmt útgönguspánni. Miðflokkurinn fær 7,1%, Vinstriflokkurinn 6,1%, Kristilegir demókratar 5,7% og Svíþjóðardemókratarnir 4,6%. Er þetta í fyrsta skipti sem síðastnefndi flokkurinn, sem er lengst til hægri, fær þingmenn kjörna. 

Verði þetta niðurstaða kosninganna gæti Reinfeldt lent í erfiðleikum því ríkisstjórn hans hefur þá ekki hreinan meirihluta á sænska þinginu. Enginn flokkur vill vinna með Svíþjóðardemókrötunum, sem berjast meðal annars fyrir því að straumur innflytjenda til Svíþjóðar verði stöðvaður. Því gæti Reinfeldt þurft að leita samninga við flokka á vinstri væng til að koma málum í gegnum þingið. 

Reinfeldt hefur sjálfur sagt, að hann kunni að leita til Umhverfisflokksins nái kosningabandalag hans ekki hreinum meirihluta. Mona Salin leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, hefur sagt að hún muni reyna að fá Þjóðarflokkinn eða Miðflokkinn til liðs við vinstriflokkana. 

Mona Salin, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, lokar umslaginu með kjörseðlinum.
Mona Salin, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, lokar umslaginu með kjörseðlinum. Reuters
Göran Hägglund, leiðtogi Kristlegra demókrata.
Göran Hägglund, leiðtogi Kristlegra demókrata. Reuters
Á kjörstað í Stokkhólmi.
Á kjörstað í Stokkhólmi. Reuters
Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins, og Frederik Reinfeldt, leiðtogi Hægriflokksins.
Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins, og Frederik Reinfeldt, leiðtogi Hægriflokksins. Reuters
Jan Björklund, leiðtogi Þjóðarflokksins, á kjörstað.
Jan Björklund, leiðtogi Þjóðarflokksins, á kjörstað. Reuters
Lars Ohly, leiðtogi Vinstriflokksins.
Lars Ohly, leiðtogi Vinstriflokksins. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert