30 þúsund börnum skilað eftir ættleiðingu

Yfir 20% barna í Rússlandi eru skilgreind sem munaðarleysingjar
Yfir 20% barna í Rússlandi eru skilgreind sem munaðarleysingjar mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Eitt af hverjum þremur börnum sem er ættleitt í Rússlandi á síðustu þremur árum hefur verið sent aftur til Rússlands og komið fyrir á stofnunum á vegum hins opinbera. Alls eru þetta 30 þúsund börn, að sögn Albert Likhanov sem berst fyrir réttindum barna.

Flest barnanna eru send eru aftur til Rússlands vegna þess að greiðslur á opinberum styrk með börnunum hefur brugðist eftir að efnahagskreppan reið yfir Rússland seint á árinu 2008, segir Likhanov í viðtali við AFP fréttastofuna.

Yfir 700 þúsund börn munaðarlaus í Rússlandi

Alls hafa 90 þúsund börn verið gefin til ættleiðingar af hinu opinbera í Rússlandi á síðustu þremur árum. 30 þúsund þeirra hafa verið send heim á munaðarleysingjahæli, segir hann. Ekki hafa verið jafn margir munaðarleysingjar í Rússlandi síðan í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar, alls um sjö hundruð þúsund börn, eða yfir 20% af íbúum Rússlands á barnsaldri.

Ekki eru öll börnin munaðarlaus þar sem í einhverjum tilvikum hafa foreldrar þeirra hafnað þeim eða eru ófærir um að ala upp börn.

„Fjölskyldur sem ættleiða verða að skilja að barn á ekki að ættleiða á fjárhagslegum grundvelli heldur að fjölskyldur séu reiðubúnar til þess að upplifa slíka reynslu," segir Likhanov við AFP.

Fyrr á árinu var lagt bann við ættleiðingum rússneskra barna til Bandaríkjanna eftir að bandarísk kona sendi ættleiddan son sinn til baka, einungis sjö ára að aldri, einan með flugvél. Sagði konan ástæðuna vera ofbeldishneigð drengsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert