Úrslit sænsku kosninganna marka endalok tímabils þar sem sænskir jafnaðarmenn voru ráðandi afl. Þetta segir í leiðara sænska dagblaðsins Dagens Nyheter.
Svíþjóðardemókratar, sem er yst á hægri vængnum, fengu 5,7% fylgi og náðu mönnum á þing. Bandalag mið- og hægriflokka fékk 49,3% atkvæða og 172 þingmenn, sem þýðir að Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra þarf að tryggja sér stuðning a.m.k. þriggja þingmanna til að geta myndað meirihlutastjórn. Talið er að hann mun leita til Græningja eftir stuðningi.
„Sigur bandalags mið- og hægriflokka markar endalok ráðandi stöðu jafnaðarmanna í sænskum stjórnmálum. Hin óþægilega hlið úrslitanna er er árangur Svíþjóðardemókratanna,“ segir í leiðara Dagens Nyheter.
Svenska Dagbladet segir í sínum leiðara að úrslitin dragi upp nýja mynd af Svíþjóð. Sú mynd sem blasi við sé sigur bandalags mið- og hægriflokka án þess þó að hafa ná meirihluta, brotlending jafnaðarmanna og lykilstaða hægriöfgaflokks Svíþjóðardemókrata.
Fjölmiðar í Svíþjóð reikna með að það verði flókið fyrir stjórnmálaflokkana í Svíþjóð að vinna úr þessari stöðu. Mikið er fjallað um stöðu jafnaðarmanna sem hafa verið ráðandi í sænskum stjórnmálum áratugum saman. Dagens Nyheter bendir á að frá 1932 hafi jafnaðarmannaflokkurinn stjórnað í 83% tímans. Blaðið segir að sá tími þegar einn flokkur gat nánast gengið út frá því að vera við völd og ráðið öllu sé liðinn.