„Sorgardagur í Svíþjóð“

Marianne Berg.
Marianne Berg.

„Ég er satt að segja þunglynd vegna úrslitanna. Útkoman og þá sér í lagi gott gengi Svíþjóðardemókrata er dapurleg. Þetta er sorgardagur í Svíþjóð,“ segir Marianne Berg, þingmaður Vinstriflokksins í Svíþjóð, um kosningaúrslit helgarinnar.

Berg var enn að gera upp kosningarnar þegar Morgunblaðið ræddi við hana upp úr hádegi að sænskum tíma í dag. Hún þurfti þó ekki að hugsa sig lengi um er stefnuskrá Svíþjóðardemókrata bar á góma.

„Stefnan er rasismi. Þeir etja einum þjóðfélagshópi gegn öðrum. Það hefur engum flokki tekist það til þessa,“ segir Berg og er greinilega mikið niðri fyrir.

Stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata séu í minnihluta og andúð á múslímum eða öðrum hópum innflytjenda alls ekki útbreidd í Svíþjóð.

Vinstriflokkurinn, flokkur Berg, fékk 6,3% atkvæða, úrslit sem hún segir mikil vonbrigði fyrir flokkinn. Stefnan hafi verið sett á 7% atkvæða og úrslitin kostað þrjá þingmenn þingsæti.

Skilur ekki þankaganginn

„Ég er satt að segja þunglynd vegna úrslitanna. Útkoman og þá sér í lagi gott gengi Svíþjóðardemókrata er dapurleg. Þetta er sorgardagur í Svíþjóð. Þetta er í fyrsta sinn sem rasistaflokkur nær sætum á sænska þinginu. Ég er í sannleika satt steinhissa yfir úrslitunum. Ég skil ekki hvað fólk er að hugsa er það greiðir Svíþjóðardemókrötum atkvæði sitt.

Þetta er flokkur sem etur þjóðfélagshópum saman. Ég skil ekki hvernig svona flokkur gat fengið svo mikið fylgi. Hér í Suður-Svíþjóð þar sem ég bý hafa Svíþjóðardemókratar notið talsverðs stuðnings en mér kom aldrei til hugar að þeir myndu komast á þing,“ segir Berg en þess má geta að sænskir stjórnmálaflokkar þurfa 4% atkvæða til að komast á þing.

Svíþjóðardemókratar gerðu gott betur, fengu 5,4% atkvæða.

Kratar í tilvistarkreppu

Jafnaðarmannaflokkurinn sænski hefur verið höfuðvígi sósíaldemókrata í Evrópu. Sú vígstaða hefur breyst. Flokkur hófsamra hægrimanna undir forystu Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra hefur fest sig í sessi sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins og telur Berg aðspurð að mikið þurfi að koma til eigi jafnaðarmenn að ná vopnum sínum aftur.

Jafnaðarmannaflokkurinn fékk 30,9% atkvæða og metur Berg framtíð flokksins í náinni framtíð svo að óraunhæft sé að stefna á meira en stuðning 30 til 35% kjósenda.

Til að ná þeirri stöðu þurfi jafnaðarmenn að leggja fram skýrari stefnu í atvinnumálum og þjóðmálum almennt. Að öðrum kosti muni þeim ekki takast að auka við fylgi sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert