Búið er að telja atkvæði, sem greidd voru í þingkosningunum í Svíþjóð, og virðist niðurstaðan hafa orðið að kosningabandalag borgaraflokkanna, sem farið hefur með stjórn landsins undanfarið kjörtímabil, fær 173 þingsæti af 349 á sænska þinginu, einu þingsæti fleira en tilkynnt var á sunnudag eftir fyrstu talningarumferð. Stjórnarflokkarnir hafa því ekki meirihluta á þinginu.
Kosningabandalag vinstriflokkanna fær 156 þingsæti og Svíþjóðardemókratarnir 20. Síðustu daga hafa verið talin utankjörstaðaratkvæði og hefur það haft áhrif á uppbótarþingsæti.
Þannig náði Umhverfisflokkurinn þingsæti af Jafnaðarmannaflokknum í Dölunum og það hafði aftur þau áhrif, að Miðflokkurinn fékk uppbótarþingsæti, sem Umhverfisflokkurinn hefði ella fengið. Við þetta fjölgaði þingsætum stjórnarflokkanna um eitt.
Aðeins munaði níu atkvæðum í Gautaborg, að Þjóðarflokkurinn, einn af stjórnarflokkunum, næði þingsæti af Jafnaðarmannaflokknum, stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Þá vantaði Þjóðarflokkinn 7 atkvæði í Vermalandi til að vinna mann af Jafnaðarmannaflokknum.