Biskup sem berst gegn samkynhneigð sakaður um samkynhneigð

Eddie Long með George Bush fyrrverandi forseta.
Eddie Long með George Bush fyrrverandi forseta.

Eddie Long, biskup í Atlanta í Bandaríkjunum, hefur verið kærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn þremur mönnum. Hann neitar ásökunum. Biskupinn er m.a. kunnur fyrir harða andstöðu við samkynhneigð.

Eddie Long er stofnandi áhrifamikils safnaðar baptista í Atlanta. Coretta Scott King, ekkja Martin Luther King, var jörðuð frá kirkjunni fyrir fjórum árum. Fjórir forsetar hafa sótt messu í kirkjunni, þ.e. Bush-feðgar, Jimmy Carter og Bill Clinton.

Eddie Long stendur nú frammi fyrir því að þurfa að verjast ásökunum þriggja manna sem saka hann um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Tveir mannanna, sem voru 17 og 18 ára gamlir þegar ofbeldið á að hafa átt sér stað, segjast hafa fengið gjafir frá biskupnum, m.a. peninga, bíla og ferðir til útlanda.

Þetta mál hefur vakið talsverða athygli í Bandaríkjunum, m.a. vegna þess að Long er þekktur fyrir að fordæma samkynhneigð. Hann var í forystu fyrir herferð sem beitti sér gegn því að samkynhneigðir mættu giftast. Söfnuður hans hefur lýst því yfir að hann geti afhommað menn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert