Flugvél, sem lent var á Arlandaflugvelli í Stokkhólmi í morgun vegna gruns um að einn farþeginn væri með sprengiefni í fórum sínum, er nú farin þaðan áleiðis til Manchester á Englandi.
Umræddur farþegi var handtekinn en ekkert sprengiefni fannst, hvorki í fórum hans né í flugvélinni. Honum hefur nú verið sleppt en að sögn lögreglu komu þessar ásakanir honum algerlega í opna skjöldu.
Flugstjóri vélarinnar ákvað að lenda henni á Arlandaflugvelli eftir að lögregla í Kanada hafði samband við hann og sagði honum, að kona hefði hringt úr símasjálfsala í lögreglu í Toronto og tilkynnt að 25 ára gamall Kanadamaður af pakistönskum ættum hefði farið með sprengiefni um borð í vélina.
Flugvélin var upphaflega á leið frá Toronto til Karachi í Pakistan. Eftir að hún lenti voru farþegar látnir fara frá borði og sænskir sérsveitarmenn handtóku farþegann, sem sagður var vera með sprengiefni. Eins og áður sagði fannst ekkert grunsamlegt í fórum hans og ekki heldur við leit í vélinni og í farangri farþega.
Sama áhöfn, og var í vélinni þegar hún kom til Svíþjóðar, mun fljúga henni til Englands. Farþegarnir eru einnig um borð.