Stjórnvöld í Chile hafa krafist þess að námufyrirtækið San Esteban greiði fyrir björgun 33 námumanna sem hafa verið fastir neðanjarðar í næstum tvo mánuði. Kostnaðurinn við björgunina er talinn vera um milljarður íslenskra króna.
Að sögn spænska dagblaðsins El País höfðuðu stjórnvöld mál gegn námufyrirtækinu til þess að krefjast þess að það tæki ábyrgð á björgun námuverkamannanna og endurgreiddi það fé sem ríkið hefur lagt til verksins hingað til, alls tæpar 400 milljónir króna.
Eru stjórnvöld ekki sögð reiðubúin að halda áfram að borga fyrir fyrirtækið sem tilkynnti ekki um slysið þar sem námuverkamennirnir lokuðust inni fyrr en mörgum klukkustundum eftir að það hafði átt sér stað.
Námumennirnir eru innilokaðir á 700 metra dýpi í gull- og koparnámu nálægt borginni Copiapo í Sjíle eftir að aðalgöng námunnar hrundu í byrjun ágústmánaðar.