Um 10.000 manns mótmæltu Kóranbrennunni, sem bandarísk kirkja hugðist standa fyrir þann 11. september, á götum úti í borginni Batman í suðausturhluta Tyrklands í dag.
„Brjótið hendur þeirra sem vilja brenna Kóraninn“ sagði á einu mótmælaspjaldanna „Við munum fórna lífi okkar fyrir þig, Kóran“ sagði annað.
Síðasta sunnudag mótmæltu um 30.000 manns Kóranbrennunni í nágrannabænum Diyarbakir, sem er stærsta borgin í hinum aðallega kúrdíska suðausturhluta Tyrklands.
Það var evangelískur prestur í Flórídafylki í Bandaríkjunum sem hugðist standa fyrir bókabrennu á Kóraninum til þess að minnast árásanna á Tvíburaturnana þann 11. september.
Hætti hann við áformin vegna gríðarlegs pólitísks þrýstings frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum og erlendis.