Deilur komu upp milli skosku heimastjórnarinnar og bresku stjórnarinnar um hver ætti að leiða breska sendinefnd á fundi á vegum Evrópusambandsins í Brussel þar fjallað verður um makrílkvóta.
Fram kemur á vef Aberdeen Press and Journal, að Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, hafi krafist þess að Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skota, fari fyrir bresku sendinefndinni eftir að í ljós kom að Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Breta, myndi ekki fara á fundinn. Til stóð að Jim Paice, aðstoðarráðherra, myndi tala máli Breta á fundinum.
Blaðið hefur eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra samtaka skoskra úthafsveiðimanna, að hann vonaði að deilan um hver ætti að fara fyrir bresku sendinefndinni muni ekki yfirskyggja þá alvarlegu stöðu, sem skoski fiskveiðiflotinn væri í vegna krafna Íslendinga og Færeyinga um makrílkvóta.