Kínverjar vara Nóbelsnefndina við

Liu Xiaobo sat meðal annars í fangelsi fyrir mótmæli á …
Liu Xiaobo sat meðal annars í fangelsi fyrir mótmæli á Torgi hins himneska friðar. Mbl.is/Una

Kínverjar hafa varað Nóbelsverðlaunanefndina við að veita kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo sem situr í fangelsi friðarverðlaunin í ár. Að sögn kínverska utanríkisráðuneytisins væri það andstætt markmiðum verðlaunanna. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu í dag.

Formaður norsku Nóbelsstofnunarinnar, Geir Lundestad, greindi frá því á dögunum að aðstoðarutanríkisráðherra Kína hafi varað hann við að ef Liu Xiaobo yrði veitt verðlaunin myndi það hafa áhrif á samband landanna tveggja.

„Sú ákvörðun kæmi niður á samskiptum Noregs og Kína og yrði túlkuð sem óvinsamleg,“ á ráðherrann að hafa sagt Lundestad.

Að sögn talskonu kínverska utanríkisráðuneytisins er Liu í fangelsi vegna þess að hann hafi brotið gegn kínverskum lögum. „Gjörðir hans stangast algerlega á við markmið friðarverðlauna Nóbels. Ósk herra Nóbels var að verðlaunin væru veitt fólki sem stuðlaði að friði, alþjóðlegri vináttu og afvopnun.“

Lundestad, sem skipuleggur fundi Nóbelsverðlaunanefndarinnar, sagði að Kína hafi gefið frá sér slíkar viðvaranir áður en að þær hefðu engin áhrif á störf nefndarinnar.

Václac Havel, Desmond Tutu og fleiri hafa hvatt nefndina til þess að veita Liu verðlaunin í ár en á jóladag í fyrra var hann dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir að hvetja til undirróðurstarfsemi gegn ríkinu.

Áður sat Liu í fangelsi í tvö ár fyrir sinn hlut í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989 og aftur í þrjú ár fyrir að mótmæla flokkseinræðinu í Kína.

Að sögn eiginkonu hans veit Liu ekki af því að hann hafi verið tilnefndur þar sem hann megi ekki fá fréttir frá umheiminum í fangelsinu og henni sé ekki leyft að ræða slíka hluti við hann í heimsóknum.

Nóbelsverðlaunanefndin mun tilkynna um handhafa Friðarverlauna Nóbels í Osló þann 8. október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert