Fyrri heimstyrjöldinni lýkur formlega næsta sunnudag, 92 árum eftir að byssurnar þögnuðu. Á sunnudag munu Þjóðverjar greiða síðustu afborgun bóta sem þeir sömdu við bandamenn um að greiða í kjölfar stríðsins.
Síðasta afborgunin nemur 59,5 milljónum pundum eða 10,6 milljörðum króna. Með henni hafa Þjóðverjar uppfyllt Versalasamninginn frá árinu 1919 en samkvæmt honum þurfti Þýskaland að greiða fyrir gríðarlegar skemmdir vegna stríðsins í Belgíu og Frakklandi. Talið er að um 10 milljónir hermanna hafi látið lífið í fyrri heimstyrjöldinni, segir í breska blaðinu Telegraph.
Skuldina átti að vera löngu búið að greiða en Adolf Hitler neitaði að borga er hann var við völd. Í leiðara þýska blaðsins Bild segir að á sunnudag sé heimstyrjöldinni loksins lokið, í það minnsta fjárhagslega séð.