Gert er ráð fyrir því að þúsundir muni taka þátt í mótmælum í Brussel í dag þar sem aðhaldsaðgerðum stjórnvalda víða í ríkjum Evrópusambandsins verður mótmælt. Telja Evrópusamtök stéttarfélaga að mótmælin í dag geti orðið ein þau fjölmennustu í höfuðborg Belgíu í áraraðir.
Segja samtökin að almennir starfsmenn í Evrópu séu helstu fórnarlömb fjármálakreppunnar sem bankarnir og verðbréfamiðlarar báru ábyrgð á.
Á Spáni hófst allsherjarverkfall á miðnætti og boðað hefur til mótmæla í Grikklandi, Póllandi, Ítalíu, Lettlandi, Írlandi og Serbíu.
Segir í frétt BBC að margar ríkisstjórnir í aðildarríkjum ESB hafi neyðst til þess að krefjast launalækkana, lækka lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur til þess að taka á skuldavanda hins opinbera.
Í Grikklandi og á Írlandi hefur atvinnuleysi ekki mælst jafn mikið í áratug og á Spáni hefur fjöldi atvinnulausra tvöfaldast á einungis þremur árum.
Í Bretlandi stefna stjórnvöld á að draga úr útgjöldum hins opinbera um 25% og í Frakklandi er allt á suðupunkti út af ákvörðun stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldurinn í 62 ár.