Burðarríki efnahagskerfisins sem var byggt upp eftir síðari heimsstyrjöldina skiptast á að fella gengi gjaldmiðla sinna. Ástæðan er einföld: Ríkin reyna að ná í stærri sneið af minnkandi útflutningsmarkaði með því að stuðla að verðlækkun á útflutningsvörum.
Þetta er skoðun fjármálasérfræðingsins Alex Jurshvevki hjá kanadíska fjármálafyrirtækinu Recovery Partners en gagnrýni hans á samvinnuna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur vakið athygli hér á landi og víðar.
Jurshevski bendir á að bandaríski seðlabankinn hafi einsett sér að lækka gengi bandaríkjadals, líkt og seðlabanki Englands hafi gert með pundið að undanförnu. Þá hafi Evrópski seðlabankinn keypt skuldabréf í ríkjum evrusvæðisins í því skyni að forða evrópskum bönkum og evrunni sem gjaldmiðli frá hruni.
Líkir Jurshevski evruríkjunum sem bankinn kaupir bréfin af við „uppvakninga“, með vísan til þekkts hugtaks um fyrirtæki sem eru í raun gjaldþrota en er haldið gangandi fyrir atbeina ríkisins.
Jafnframt hafi Japansstjórn, sem á í vanda vegna hás gengis jensins, reynt að lækka gengi gjaldmiðils síns, líkt og Rússar, Brasilíumenn, Kínverjar og nokkrar útflutningsþjóðir í Suðaustur-Asíu.
Kerfislæg og djúp heimskreppa
Jurshevski heldur því fram að heimurinn standi frammi fyrir djúpstæðri skuldakreppu, á sama tíma og ríki heims glími við vaxandi ójafnvægi á milli tekna og ríkisskuldbindinga fram í tímann, meðal annars vegna aldurssamningar sem sé nútímanum óvilhöll. Vísar hann þar til þess, að stór eftirstríðsárakynslóð muni þurfa aðhlynningu sem kynslóð án mikilla tækifæra í samtímanum þurfi að standa undir.
Niðurstaða hans þegar gengisfellingarnar eru annars vegar er sú að þær vitni um að heimshagkerfið glími við kerfislægt vandamál sem ekki sé hægt að afgreiða sem reglubundna hringrás uppgangs og niðursveiflu.