Vilja bæta heilsutjón vegna árásanna

Horft yfir New York.
Horft yfir New York.

Sjúkraflutningamenn og aðrir sem aðstoðuðu við björgun í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana 11. september 2001 fá nú loks bætur, hafi þeir orðið fyrir heilsutjóni vegna starfa sinna. Fulltrúadeild bandaríska þingsins hefur nú samþykkt frumvarp þess efnis. Lögin tryggja einnig íbúum í New York, sem urðu fyrir heilsutjóni vegna eiturgufa og reykjar í kjölfar árásanna bætur. Kostnaðurinn við framkvæmd frumvarpsins er talinn nema 7,4 milljörðum Bandaríkjadala.

Atkvæði fóru 268 gegn 160 á þinginu, sautján repúblikanar studdu frumvarpið auk flestra fulltrúa demókrata. Repúblikanar lýstu yfir áhyggjum af kostnaðinum. Óljóst er hver örlög frumvarpsins verða í öldungadeild þingsins. Repúblikanar eru sagðir líklegir til að hafna því og sömuleiðis hafa demókratar í öldungadeildinni ekki gefið mikið út á hvaða leið þeir vilji fara.

Með frumvarpinu samþykkir þingið að greiða þeim sem slösuðust og hlutu annan miska við björgunarstörfin 3,2 milljarða dala og að auki skuldbindur New York borg sig til að greiða hluta kostnaðarins. Þá á að setja 4,2 milljarða dala í bótasjóð fyrir þá sem misstu vinnuna eða urðu fyrir annars konar fjárhagslegu tjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert