Vopnaðir menn eyðulögðu yfir tuttugu herbíla fjölþjóðahers Atlantshafsbandalagsins í suðurhluta Pakistan í dag. Voru bílarnir að flytja birgðir fyrir NATO hermenn í Afganistan, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Pakistan.
Árásir á flutningalestir NATO og Bandaríkjahers eru algengar á þessum slóðum. Um tuttugu árásarmenn vopnaðir sprengjuvörpum og rifflum réðust að flutningalestinni og kveiktu í bifreiðunum, alls 27 herbílum, að sögn lögreglu.
Ekki hefur verið hægt að flytja vistir yfir landamæri Pakistan og Afganistan í tvo daga og bíða herflutningabílar við landamærin. Flutningalestin sem varð fyrir árásinni í morgun hafði verið stöðvuð við landamærin í gær. Er bannið rakið til loftárásar NATO hersins í gær en þrír pakistanskir hermenn féllu í árásinni. Sögðust þeir hafa haldið að Pakistanarnir hafi skotið fyrst á þá.
Enginn lést í árásinni í morgun og árásarmennirnir komust allir undan.