Sýktu fólk vísvitandi af kynsjúkdómum

Reynt var á miðöldum að lækna sárasótt með kvikasilfri.
Reynt var á miðöldum að lækna sárasótt með kvikasilfri.

Bandaríkjastjórn baðst í dag afsökunar á tilraunum, sem gerðar voru í Gvatemala fyrir rúmum sex áratugtum en þá voru hunduð fanga og geðsjúkra sýkt vísvitandi af kynsjúkdómum, sárasótt og lekanda.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, að Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Kathleen Sebelius, heilbrigðisráðherra, sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þetta var fordæmt.  

Alvaro Colom, forseti Gvatemala, sakaði Bandaríkin um glæpi gegn mannkyninu. Sárasótt getur valdið hjartatruflunum, blindu, geðsýki og jafnvel dauða. Þótt sjúklingarnir væru meðhöndlaðir er ekki vitað hve margir læknuðust. 

Susan Reverby, prófessor hjá Wellesley háskóla, fann gögn um þessar tilraunir og segir, að stjórnvöld í Gvatemala hafi veitt leyfi fyrir tilraununum, sem voru gerðar á árunum 1946 til 1948. Voru um 700 manns vísvitandi sýkt með kynsjúkdómunum til að rannsaka, hvort pensílín gæti komið í veg fyrir slíka sjúkdóma en ekki aðeins læknað þá.

Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, sagði í dag að þessar upplýsingar væru sorglegar og að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, ætlaði að hringja í Colom og biðjast afsökunar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert