Talið er að í N-Noregi sé hægt að vinna gull og fleiri verðmæt efni fyrir 1500 milljarða norskra króna eða um 30 þúsund milljarða ísl. króna. Að sögn Aftenposten mun Trond Giske atvinnumálaráðherra nú veita 100 milljónir n. kr. í rannsóknir á svæðinu. Gullið geti tekið við þegar olían verði búin.
Blaðið segir að Svíar, Finnar og Rússar hafi þegar fundið mikið af ýmsum verðmætum efnum og málmum á sínum svæðum í grennd við Norður-Noreg. Norðmenn hafi hins vegar lengi verið uppteknari af því að leita að olíu og gasi á hafsbotni.
Síðast hafi svæðið verið kannað á níunda áratugnum en nú sé komin fram á sjónarsviðið ný og fullkomnari leitartækni. Hægt sé að mæla úr lofti jarðlög niður á 400 metra dýpi og með mælingum á segulafli og öðrum atriðum verði hægt að slá því föstu hve mikil auðæfi séu þarna í jörðu.