Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, er nú í heimsókn í Grikklandi og undirritaði samning um kínverskar fjárfestingar í landinu og annan stuðning en efnahagur Grikkja er afar bágborinn. ,,Kína mun leggja sig fram um að styðja efnahag evrusvæðisins og Grikklands," sagði Wen.
Skuldir Grikkja nema nær 300 milljörðum evra og minnstu munaði að ríkið yrði gjaldþrota í maí. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tóku þá saman höndum og lögðu fram 110 milljarða evra til að bjarga Grikklandi.
Í föruneyti Wens er fjöldi ráðherra og kaupsýslumanna en einnig seðlabankastjóri Kína, Zhou Xiaochuan. Kínverjar munu meðal annars kaupa ný grísk ríkisskuldabéf. Einnig munu þeir stofna sjóð upp á fimm milljarða dollara til að aðstoða grísk skipafélög við að láta smíða skip í Kína.