Lundúnabúar eru heiðarlegri en fingralangir Parísarbúar segir Boris Johnson, hinn litríki borgarstjóri Lundúna. Nýlega hófu borgaryfirvöld í Lundúnum að bjóða upp á reiðhjól til leigu um alla borg líkt og í París en þar hafa mörg þeirra horfið sporlaust frá því hjólaleigan hófst.
Johnson var að ávarpa ársþing Íhaldsflokksins í Birmingham þegar hann spurði áheyrendur sína hversu mörgum hjólum þeir héldu að hefði verið stolið undanfarna tvo mánuði í Lundúnum.
„Aðeins þrjú hjól hafa horfið. Segir það ykkur það að okkar hjólaleiguáætlun sé líkt og Rolls Royce miðað við [Citroen] 2CV Frakkanna? Já, svo sannarlega,“ sagði Johnson og uppskar mikil hlátrasköll og klapp.
„Segir það ykkur að Lundúnarbúar séu heiðarlegri en hinir fingralöngu Parísarbúar? Ég bendi á að í París tókst þeim að tapa fimm hundruð hjólum á sama tímabili. Þeir töpuðu þrjú þúsund stolnum hjólum fyrstu þrjá mánuði sinnar áætlunar.“
Johnson sagðist þó ekki vilja spilla samskiptum þjóðanna en að samanburðurinn væri augljós.
„Þið spyrjið ykkur eflaust hvað hafi orðið af þessum þremur hjólum. Við erum með þau og ekki bara það, heldur höfum við sökudólgana líka!“ sagði hann við mikil fagnaðarlæti.
Alls eru fimm þúsund hjól í boði á 315 stöðum um alla borgina og eru mörg þeirra nærri vinsælum ferðamannastöðum eins og Buckingham-höll og þinghúsinu.
París og Sjanghæ bjóða upp á svipaða þjónustu.